Kjörbréfanefnd Alþingis kom saman til stutts fundar klukkan hálf tíu í morgun. Eftir fyrsta fund nefndarinnar í gær liggur fyrir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Flokks fólksins mynda meirihluta í nefndinni um að leggja til að Alþingi samþykki öll útgefin kjörbréf Landskjörstjórnar eftir alþingiskosningarnar hinn 25. september.
Einnig er ljóst að nokkur minnihlutaálit gætu komið fram þar sem nefndarmenn færa rök úr ólíkum áttum að sömu niðurstöðu. Þannig að hinar eiginlegu tillögur gætu orðið færri en álitin.

Birgir Ármannsson formaður kjörbréfanefndar segir gert ráð fyrir að meirihluti nefndarinnar leggi til að kjörbréf allra sextíu og þriggja þingmanna verði staðfest. Enda væri ekki hægt að draga þá ályktun af rannsókn málsins að ógilda bæri kosninguna í Norðvesturkjördæmi.
„Það hafa komið fram gallar á framkvæmdinni þar en það hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að þeir gallar sem þar er um að ræða hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Lagaskilyrðið gengur nákvæmlega út á það,“ segir Birgir.
Umræðan fyrir atkvæðagreiðsluna á morgun gæti orðið löng og fari fram samkvæmt þingsköpum um aðra umræðu lagafrumvarpa þótt hann teldi þingmenn ekki endilega vera að búast við langri umræðu.
„Það er alla vega ljóst að bæði nefndarmenn og jafnvel aðrir þingmenn vilja með einhverjum hætti tjá skoðanir sínar. Það er nú samt enginn að búast við því að þetta verði margra daga umræða. Heldur gera men ráð fyrir að þetta klárist á morgun.“
Að atkvæðagreiðslan fari fram á morgun, menn reikna frekar með því?
„Já, það er gert ráð fyrir að það verði hægt að ganga þannig frá að atkvæðagreiðsla verði ekki seinna en annað kvöld,“ segir Birgir Ármannsson.
Ef niðurstaða atkvæðagreiðslunnar á morgun verður að öll kjörbréf verði samþykkt gætu stjórnarflokkarnir mögulega kynnt nýja ríkisstjórn og stjórnarsáttmála á laugardag. Það er að því gefnu að þær stofnanir flokkanna sem þurfa að leggja blessun sína yfir stjórnarsáttmálann nái að gera það á föstudag. Að öðrum kosti mun það dragast fram yfir helgi.