Kjörbréfanefnd afgreiddi fjögur nefndarálit og þrjár tillögur til afgreiðslu Alþingis á kjörbréfamálinu á fundi þingsins sem hefst klukkan eitt í dag. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Flokks fólksins sem mynda meirihuta í nefndinni leggja til að öll kjörbréf verði samþykkt.
Í minnihlutatillögu Svandísar Svavarsdóttur Vinstri grænum og Þórunnar Sveinbjarnardóttur Samfylkingu er lagt til að fjörtíu og sjö kjörbréf verði staðfest. Það er allra þingmanna annarra en kjördæmakjörinna þingmanna í Norðvesturkjördæmi og níu jöfnunarþingmanna. Ef sú tillaga yrði samþykkt yrði að boða til uppkosninga í Norðvesturkjördæmi.
Þriðja tillagan kemur síðan frá Birni Leví Gunnarssyni fulltrúa Pírata um að ekkert kjörbréfanna verði staðfest. Ef sú tillaga yrði samþykkt yrði að boða til nýrra alþingiskosninga í öllum kjördæmum.

Birgir Ármannsson formaður nefndarinnar segir það í höndum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur starfandi forseta Alþingis í hvaða röð tillögurnar verða teknar til atkvæðagreiðslu.
“Við í nefndinni höfum gert ráð fyrir að first verði greidd atkvæði um tillögu Pírata sem felur í sér að ekkert kjörbréf verði metið gilt,” segir Birgir. Þessi tillaga gangi lengst.
Ef hún yrði samþykkt þyrfti að boða til nýrrra alþingiskosninga í öllum kjördæmum.
Verði þessi tillaga felld segir Birgir að tillaga Svandísar og Þórunnar kæmi til atkvæðagreiðslu.
„Um að fjörtíu og sjö kjörbréf verði samþykkt. En sleppt að samþiggja kjörbréf úr Norðvesturkjördæmi og kjörbréf jöfnunarmanna,“ segir Birgir.

Ef þessi tillaga næði fram að ganga þyrfti að fara fram uppkosning í Norðvesturkjördæmi.
„Og ef hún nær ekki fram að ganga verði að lokum greidd atkvæði um kjörbréf allra sextíu og þriggja og kosningarnar þar með metnar gildar,“ segir formaður kjörbréfanefndar.
Starfandi forseti Alþingis segist sömu skoðunar og nefndarfólk um röð tillagna í atkvæðagreiðslunni.
Ómögulegt er að segja til um hve lengi umræðurnar standa enda engin tímamörk á þeim en almennt er búist við að hægt verði að lljúka þeim og greiða atkvæði um tillögurnar í kvöld.
„Hins vegar er það auðvitað þannig að þetta er sérstakt mál og auðvitað stórt. Þannig að það eru auðvitað ýmsir þingmenn sem vilja taka til máls,“ segir Birgir Ármannsson.