BBC greinir frá. Afbrigðið greindist fyrst í Suður Afríku fyrr í mánuðinum og gaf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin nýja afbrigðinu heitið Ómíkron í vikunni. Um er að ræða næsta afbrigðið á eftir Delta sem stofnunin hefur teljandi áhyggjur af.
Afbrigðið hefur greinst hratt út og er talið að tilfelli þess hafi verið greind í Belgíu, Ísrael, Hong Kong, Suður Afríku og Þýskalandi, svo dæmi séu tekin.
Yfirvöld í Bretlandi hafa brugðist við afbrigðinu með því að setja setja nokkur lönd í Afríku á svokallaðan rauðan lista, sem þýðir að allir farþegar frá þeim löndum þurfa að fara í tíu daga sóttkví við komuna til landsins.
Búist er við að Evrópusambandið setji á ferðabann frá þessum löndum auk þess sem að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur varað við ferðalögum til þessara landa. Þá segist hann vera með í smíðum minnisblað með tillögum að hertum aðgerðum á landamærunum til að bregðast við Ómíkron-afbrigðinu.
Löndin sem flug verða ekki heimil til Evrópu frá miðað við aðgerðir ESB eru eftirfarandi:
- Botsvana
- Esvatíní
- Lesótó
- Mósambík
- Namibía
- Suður Afríka
- Zimbabwe
Afbrigðið er mikið stökkbreytt og gefa rannsóknir til kynna að það smitist auðveldar manna á milli og hafa vísindamenn áhyggjur af því að það gæti komist í gegnum bólusetningar vegna stökkbreytinganna.