Um helmingur þeirra sem greindust í gær, eða sextíu og sex, voru utan sóttkvíar við greiningu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir bylgjuna á hægri niðurleið og að nýjar hópsýkingar hafi ekki verið að koma upp. Núgildandi takmarkanir gilda til 8. desember eða næsta miðvikudags. Þórólfur segist ekki tilbúinn að ræða það sem tekur við og gildir því væntanlega yfir hátíðarnar. Tillögurnar séu í skoðun.
„Það er mikil uppsveifla í nálægum löndum. Danir eru til dæmis með töluvert fleiri tilfelli en við og það er komið verulegt álag á spítalakerfið hjá þeim. Þannig ég held að við ættum að prísa okkur sæl með að vera í niðursveiflu núna og held að við ættum ekki að glutra því niður. Sérstaklega í ljósi þess að við vitum ekki alveg með þetta nýja afbrigði,“ segir Þórólfur.

Í viðtali við Financial Times viðrar framkvæmdastjóri bóluefnaframleiðandans Moderna áhyggjur af því að bóluefni muni ekki virka jafn vel gegn omíkron afbrigðinu og að mögulega þurfi að breyta þeim. Þórólfur telur of snemmt að segja um þetta.
„Og sömuleiðis um veikindi og einkenni. Það hefur allavega ekki verið tilkynnt um alvarleg veikindi af völdum þessa afbrigðis. En ég held að næstu tvær vikurnar munum við fá betri upplýsingar um afbrigðið og hvar við stöndum gagnvart því.“

Omíkron afbrigðið hefur enn ekki greinst hér á landi og Þórólfur segir koma í ljós hvort grípa þurfi til harðari aðgerða á landamærunum. Þá verði litið til fyrri aðgerða.
„Ég er ný kominn af fundi með heilbrigðis- og öryggismálaráði Evrópu og flestar þjóðir eru að kalla eftir harðari aðgerðum á þeirra landamærunum varðandi skimanir og að krefja fólk sem er að ferðast um neikvætt próf áður en það kemur. Þetta er það sem við erum að gera núna. Nánast allir þurfa að framvísa neikvæðu prófi nema þeir fari í próf við komu. Þannig við erum með þokkalega góðar aðgerðir en þurfum að skoða þegar fram í sækir hvort það þurfi að breyta um nálgun til þess að varna því að þetta nýja afbrigði komi inn,“ segir Þórólfur.