Meðal annars verður óbólusettum meinaður aðgangur að flestum fyrirtækjum, að matvöruverslunum og apótekum undanskildum. Þá verður knæpum lokað, fjöldi áhorfenda á fótboltaleikjum takmarkaður og þing Þýskalands mun greiða atkvæði um bólusetningarskyldu snemma á næsta ári.
Ástandið hefur farið hratt versnandi í Þýskalandi og er sú bylgja (fjórða) sem gengur yfir landið núna sögð sú versta frá upphafi faraldursins. Samkvæmt frétt BBC dóu 388 Þjóðverjar í gær vegna Covid-19.
Þá óttast sérfræðingar að omíkron-afbrigði kórónuveirunnar muni gera vont ástand verra á næstu misserum en það er sagt smitast auðveldar manna á milli en delta-afbrigðið. Óttast er að allt að sex þúsund manns verði á gjörgæslu um jólin.
Angela Merkel sagði í dag að heilbrigðiskerfi landsins væri undir gífurlegu álagi
DW hefur eftir Olaf Scholz að fólk eigi að láta bólusetja sig og fá sér örvunarskammt. Þannig komist Þjóðverjar í gengum þessa krísu. 69 prósent þjóðarinnar eru bólusett en það er með því lægra í Vestur-Evrópu.
Sérfræðingar í Þýskalandi segja umfang faraldursins í Þýskalandi vera eins mikið og það er vegna óbólusettra og hafa gagnrýnt ríkisstjórn landsins fyrir hægagang.
Þær aðgerðir sem tilkynntar voru í dag eru samkvæmt DW eftirfarandi:
-Óbólusettum meinaður aðgangur að ýmsum verslunum, börum, kvikmyndahúsum og öðrum stöðum.
-Farið verður í frekari skimun meðal bólusettra.
-Grímuskylda í skólum.
-Þýska þingið mun greiða atkvæði um bólusetningarskyldu snemma á næsta ári. Mögulega í febrúar.
-Börum, tónleikahúsum og öðrum stöðum þar sem margir koma saman verður lokað þar sem nýgengi smita fer yfir 350.
-Mest fimmtán þúsund manns mega sækja fótboltaleiki. Á innanhúsviðburðum verður hámarksfjöldinn fimm þúsund.
-Samkomur óbólusettra verða takmarkaðar við eina fjölskyldu.