Sjávarútvegsfyrirtækið Brim leggur mikla áherslu á fjárfestingar í innviðum og þjónustu samfélagsins, ekki síst í nærumhverfi sínu í kringum starfsstöðvar sínar í Reykjavík, á Akranesi, á Vopnafirði og í Hafnarfirði. Brim styður meðal annars við íþróttir og æskulýðsstarf, öflugt slysavarna- og björgunarstarf, menningarstarf og nýsköpun auk fræðslu tengda sjávarútvegsfræðum.
„Ég er ekki viss um að meðalmaðurinn átti sig á því hversu víðtækur stuðningur þessa félags hefur verið fyrir nærsamfélagið, til að mynda á Vopnafirði,” segir í rökstuðningi dómnefndar.

Stjórnanda og aðaleiganda Brims, Guðmundi Kristjánssyni, er þannig lýst sem annáluðum listunnanda.
„Brennandi áhugi hans og þekking á öllu sem viðkemur listum og menningu er aðdáunarverður. Marshall-húsið er skýrasta dæmi þess,"
kemur aukinheldur fram í áliti dómnefndar.
Brim er eigandi Marshallhússins, glæsilegrar listamiðstöðvar við athafnasvæði Brims í Reykjavík.

Kvika hefur það að stefnu að hafa jákvæð langtímaáhrif á samfélagið. Hvatningarsjóði Kviku var sérstaklega komið á fót í þessu skyni, en bankinn hefur hingað til lagt mesta áherslu á styðja við ýmis konar menntamál.
„Kvika ásamt Samtökum iðnaðarins tóku höndum saman og stofnuðu sérstakan Hvatningarsjóð iðnnema, sem hefur það að markmiði að efla umræðu og vitund um mikilvægi iðn- og starfsnáms og þýðingu starfa sem því tengjast fyrir íslenskt atvinnulíf. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi slíks framtaks fyrir íslenskt samfélag," kom fram í mati dómnefndarinnar.

Fossar fyrir Takk daginn, en einu sinni á ári renna allar þóknanatekjur Fossa markaða til góðs málefnis. Starfsfólk Fossa velur málefnið hverju sinni. Dagurinn hefur verið haldinn sjö ár í röð.
Það var mat dómnefndar Innherja að einnig skildi taka það fram að Fossar væru „frumkvöðlar í útgáfu grænna skuldabréfa, sem kæmi ofan á árlegt framtak þeirra sem oft skiptir sköpum fyrir ýmis félagasamtök og góðgerðarmálaflokka.”
„Einstaklega vel til fundið og vel heppnaður dagur á hverju ári. Til fyrirmyndar og til eftirbreytni,"
segir dómnefnd Innherja.
Tilnefnt er til verðlauna í eftirfarandi flokkum og munu fleiri tilnefningarnar birtast á síðum Innherja á næstu dögum:
Kaupmaðurinn
Fyrirtæki eða einstaklingur sem vakið hefur athugli í rekstri og viðskiptum með vörur til einstaklinga og fyrirtækja.
Tækniundrið
Fyrirtæki sem vakið hefur athygli fyrir nýja tækni, tæknivæðingu, tækniforrit og/eða tækniþjónustu.
Spámaðurinn
Fyrirtæki eða einstaklingur sem þótt hefur framúrskarandi í mati og skýringum á til dæmis hagkerfinu, fjármagnsmörkuðum, atvinnugeirum og/eða stjórnmálum.
Rokkstjarnan
Bjartasta vonin í íslensku atvinnulífi. Fyrirtæki sem vakið hefur athygli og þykir líklegt til þess að vaxa og ná árangri.
Samfélagsstjarnan
Fyrirtæki sem vakið hefur athygli fyrir framlag til samfélagsins í formi stuðnings við til dæmis góðgerðarmál, jafnréttismál, íþrótta- og tómstundaiðkun, umhverfismál og þess háttar.
Jafnframt verða viðskipti ársins 2021 tilkynnt auk viðskiptamanns ársins. Þá verða veitt sérstök heiðursverðlaun íslensks atvinnulífs.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.