Félagið Fannborg sem rekið hefur ferðamannaaðstöðu í náttúruperlunni Kerlingarfjöllum hefur um nokkurt skeið unnið að hugmyndum um uppbyggingu á svæðinu.
Fyrir nokkrum árum kynnti félagið fjóra valkosti á uppbyggingu. Skipulagsstofnun benti hins vegar á það árið 2019 að tveir af valkostunum fælu í sér uppbyggingu án fordæma í hálendismiðstöðvum á miðhálendinu.

Fólu þeir meðal annars í sér gististað fyrir nærri 300 gesti, sem Skipulagsstofnun benti á að myndi verða með stærstu gististöðum landsins, utan höfuðborgarsvæðisins.
Fannborg hefur nú unnið tillögu að nýju deiliskipulagi þar sem gert er ráð fyrir 156 gistirýmum, sama fjölda og er í boði miðað við núverandi aðstöðu á svæðinu. RÚV.is sagði frá um helgina.
Stefnt er að því að nýjar byggingar á svæðinu verði í dökkum jarðarlitum til að falla betur inn í landslagið, ólíkt núverandi byggingum sem flestar eru rauðar og grænar.

Einnig er bent á að gert sé ráð fyrir að umferð bíla um svæðið verði takmörkuð og stýrt í meira mæli sem komi í veg fyrir stöðuga umferð fram hjá tjöldum og skálum. Er ætlunin með þessu að auka frið og ró gesta og tengingu þeirra við náttúruna líkt og það er orðað í skýrslu sem fylgir tillögunni.
Gert er ráð fyrir heitum pottum á svæðinu en stefnt er að því að þeir muni falla vel að umhverfinu.

Stefnt er að því að hefja framkvæmdir næsta vor eða sumar. Veltur það þó á því að öll tilskilin leyfi verði komin í hús.