Deilur hafa staðið, meðal annars fyrir dómstólum, í fimm ár, en málið skók íþróttaheiminn þegar það komst upp árið 2016.
Nassar var dæmdur í þrjú hundruð ára fangelsi árið 2018 fyrir að hafa misnotað fimleikakonur kynferðislega. Ólympíuverðlaunahafar voru í hópi þeirra sem vitnuðu gegn Nassar, um hvernig hann hafi brotið gegn þeim.
Málið er eitt það stærsta sinnar tegundar, en samkomulagið felur einnig í sér að sæti í stjórn Bandaríska fimleikasambandsins og Bandarísku Ólympíunefndarinnar verði úthlutað til kvenna sem brotið var á.
BBC segir frá því að Rachael Denhollander, sem var fyrst til að greina opinberlega frá brotum Nassars, fagni því að samkomulag sé í höfn. „Þessum kafla er loks lokið.“ Segir hún ennfremur að nú geti tími umbóta og endurreisnar hafist.
330 konur
Í hópi þeirra fimleikakvenna sem fá bætur vegna brota Nassars eru gullverðlaunahafar á Ólympíuleikum líkt og Simone Biles, Aly Raisman og McKayla Maroney.
Nassar var sakaður um að hafa brotið gegn rúmlega 330 konum og stúlkum í bandaríska fimleikalandsliðinu og í Michigan-háskólanum.
Áður hafði Michigan-háskólinn komist að samkomulagi við þær konur sem Nassar braut á innan skólans. Var árið 2018 samið um 500 milljóna dala bætur frá skólanum til kvenna sem Nassar braut þar á.