Greint var frá því fyrir jól að Miðflokkurinn með Jenis av Rana, mennta- og menningarmálaráðherra og formann flokksins í broddi fylkingar hafi hótað að sprengja ríkisstjórnina ef málið næði fram að ganga.
Tveir stjórnarþingmenn greiddu atkvæði með umræddum lagafrumvörpum sem voru lögð fram af minnihlutanum. Sagði Miðflokkurinn að Fólkaflokkurinn og Sambandsflokkurinn hafi brotið ríkisstjórnarsáttmála flokkanna og að frekara samstarf væri nær ómögulegt. Árið 2017 voru hjónabönd samkynhneigðra gerð lögleg í Færeyjum en nú var kosið um hvort jafna ætti réttindi samkynhneigðra og gagnkynhneigðra para.

Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, staðfesti í gær að loknum fundi fulltrúa stjórnarflokkanna að samstarf þeirra myndi halda áfram. Hann tilkynnti jafnframt að Johan Dahl, samflokksmaður hans í Sambandsflokknum, myndi ekki lengur tilheyra landsstjórninni. Johan studdi frumvörp stjórnarandstöðunnar og hafði gefið út að hann gæti ekki starfað með Miðflokknum. Johann mun áfram vera þingmaður Sambandsflokksins.
Samþykkt eftir óvenjulegan þingmannakapal
Annika Olsen, þingmaður Fólka flokksins, greiddi sömuleiðis atkvæði með frumvörpum stjórnarandstöðunnar. Mikið hefur gengið á í færeyskum stjórnmálum síðustu vikur í tengslum við málið.
Aðgerðir andstæðinga frumvarpanna snerist að miklu leyti um að koma Anniku Olsen, varaþingmanni Fólkaflokksins út af þingi, þar sem hún hafði lýst því yfir að hún myndi styðja málin. Tveir ráðherrar Fólkaflokksins sögðu af sér embætti til þess að taka sæti sín á þingi á ný, allt til þess að koma Anniku Olsen út.
Héðinn Zachariasson óskaði einnig eftir leyfi frá þingstörfum, sem varð til þess að Annika Olsen tók aftur sæti á þingi. Varð þetta til þess að meirihluti náðist til þess að koma frumvörpunum í gegn.
Frumvörpin tvö voru samþykkt með 17 atkvæðum gegn 13 og 18 atkvæðum gegn 13.