Málið kom til kasta Landsréttar í síðustu viku en kröfu Björgólfs hafði verið vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember. Landsréttur ómerkti þann úrskurð og sendi málið aftur heim í hérað.
Raunar er um að ræða tvö mál sem eiga rætur sínar að rekja til 600 milljóna króna skaðabótakröfu Vogunar hf. og fiskveiðihlutafélagsins Venusar hf. á hendur Björgólfi Thor vegna falls Landsbankans árið 2008.
Í úrskurði héraðsdóms í málunum, sem fylgja með úrskurði Landsréttar kemur fram að Björgólfur Thor hafi lagt fram ljósrit af frétt Ríkisútvarpsins í júní 2021 um yfirlýsingu sem Halldór sendi frá sér í tengslum við dómsmál Alvogens gegn Halldóri.
Bendir Björgólfur Thor á að í yfirlýsingunni sé vísað til greinargerðar Halldórs í dómsmálinu gegn Alvogen, þar sem því er meðal annars haldið fram að Róbert Wessman hafi falið lykilstjórnendum fyrirtækanna Alvogen og Alvotech, þar á meðal Árna Harðarsyni aðstoðarforstjóra, Þór Kristjánssyni framkvæmdastjóra og fyrrum bankaráðsmanni hjá Landsbankanum og Straumi, ásamt Halldóri að undirbúa og leiða hópmálsókn gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni.
Telur fullvíst að það verði notað gegn honum, afhendi hann gögnin
Vill Björgólfur Thor að Halldór afhendi umrædda greinargerð auk tugi tölvupósta og annarra dómskjala. Telur Björgólfur Thor að umrædd gögn skipti máli í ljósi skaðabótakröfu Venusar og Vogunar. Hann telur að gögnin sýni hvernig Róbert og lykilstjórnendur Alvogen og Alvotech hafi haft fulla stjórn á hópmálsókn gegn Björgólfi Thor vegna falls Landsbankans.
Þá vill hann jafnframt að Halldór verði kvaddur fyrir dóminn.
Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að Halldór leggist gegn því að verða við beiðninni um afhendingu gagnanna. Hann geri sér ekki fyrir því hvaða þýðingu gögnin hafi í umræddu skaðabótamáli gegn Björgólfi Thor.
Þá kveðst hann „fullviss um að ef hann afhendi sóknaraðila gögnin, þá verði reynt að nota það gegn honum, almennt og í framangreindu máli Alvogen gegn honum. Honum sé mikið í mun að tryggja að hann brjóti ekki hugsanlegar trúnaðarskyldur sínar gagnvart fyrrum vinnuveitanda. Hann geti því ekki látið gögnin af hendi, þar sem trúnaður kunni að gilda um þau, líkt og segir í úrskurði Héraðsdóms.
Aftur í hérað
Svo virðist sem að formsatriði hafi ráðið því að Landsréttur ákvað að senda málið aftur heim í hérað. Meira en fjórar vikur liðu frá því úrskurður var kveðinn upp eftir að málflutningi lauk. Samkvæmt lögum bar að flytja málið á ný nema dómari og aðilar teldu það óþarft.
Málið var ekki flutt að nýju en við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar var bókað í þingbók að sótt væri þing af hálfu beggja aðila. Hvorki var bókað að aðilar væru sammála um að flutningur málsins á ný væri óþarfur né lágu fyrir skriflegar yfirlýsingar frá lögmönnum aðila um að þeir teldu ekki þörf á endurflutningi málsins.
„Vegna þessa verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppkvaðningar úrskurðar á ný,“ segir í niðurstöðu Landsréttar.