Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum þar sem segir að björgunarsveitir hafi sinnt 145 verkefnum í dag.
„Hættustigi var lýst yfir á miðnætti í gærkvöldi þegar ljóst var að veðurspá Veðurstofu Íslands sýndi ofsaveður um allt land og mikil hætta var á foktjóni og ófærð. Veðurspáin gekk eftir og kom fyrsta útkall til björgunarsveitanna um klukkan tuttugu mínútur yfir þrjú í nótt,“ segir í tilkynningunni.
Þar sem hitastigið var ívið hærra en spár gerðu ráð fyrir snjóaði öllu minna í nótt en óttast var. Þar með voru áhrif óveðursins á færð á höfuðborgarsvæðinu ekki slík að undir morgun ætti fólk í verulegum vandræðum með að komast leiðar sinnar. Á Akureyri var veðrið einnig heldur skaplegra en reiknað var með.
Fylgst var með gangi mála í nótt og í morgun hér:
Engu að síður var veður víða afar slæmt og miklar samgöngutruflanir hafa orðið á helstu þjóðvegum landsins, sem hafa meira og minna verið lokaðir í dag. Unnið er að því að opna helstu leiðir.