Íbúi í Ingólfsstræti var að spila tölvuleik á heimili sínu eftir miðnætti í gærkvöldi, þegar hann heyrði háa hvelli fyrir utan.
„Þetta eru um fimm eða sex skot sem ég heyri. Þá hleyp ég út í glugga og sé mann halda á þessari vélbyssu eða þessari stóru byssu. Hleyp og næ í símann og fer aftur út um gluggann og þá er hann horfinn. Ég hringi bara strax í lögguna, tilkynni þeim þetta og það verður bara allt blátt,“ segir íbúinn í samtali við fréttastofu.
„Ég er náttúrulega bara skelkaður. Maður er ekki vanur að sjá mann með byssu, en þú veist hann hélt á byssu eins og sérsveitarmennirnir voru með. Þetta var MP5 eða einhver svoleiðis vélbyssa. Var eitthvað að læðast þarna í kring. Þetta er þegar djammið er að klárast fólk er úti um allt hérna í kring og hann þarna í skjóli nætur með þessa byssu sína,“ segir íbúi.
„Maður hefur séð barsmíðar og innbrot og læti en þetta var pínu öðruvísi. Ég var alveg frekar hræddur. Það væri örugglega fínt að hlusta á upptökuna á símtalinu til lögreglunnar, hvernig maður skelfur í símann,“ segir íbúi.

Fréttastofa hefur öruggar heimildir fyrir því að skotvopnið sem um ræðir var ekki skammbyssa heldur hefur það í það minnsta útlit stærra og öflugra skotvopns.
Þrír voru handteknir nálægt bílastæðahúsinu við Bergstaðastræti og Skólavörðustíg eftir árásina. Sérsveitin var að fram eftir nóttu við að koma böndum á aðstæður í bílastæðahúsinu og á myndefni sem fréttastofa hefur undir höndum má sjá að vettvangur glæpsins hefur verið afmarkaður með gulu límbandi.
Sá sem varð fyrir skotinu gekkst undir aðgerð eftir að hann kom á sjúkrahús og er kominn úr bráðri hættu. Allir hlutaðeigandi eru karlmenn með íslenska kennitölu og sumir hafa komið áður við sögu lögreglu.
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir rannsóknina á frumstigi en að lögreglan taki málið alvarlega.
„Við höfum áhyggjur af þessum vopnaburði. Ég veit ekki hversu miklum mæli það er en það farið að aukast, það fer ekki á milli mála. Og það sem er líka að aukast er að menn virðast vera tilbúnari til að beita þessu,“ segir Margeir.