Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sorpu þar sem segir að Góði hirðirinn hafi vaxið mikið undanfarin ár með aukinni áherslu á endurnotkun og minni sóun.
„Núverandi húsnæði Góða hirðisins við Fellsmúla hefur gagnast versluninni vel undanfarin ár. Vegna mikils vaxtar í umsvifum þarf verslunin nýtt og stærra húsnæði og flytur því í tvöfalt stærra rými við Köllunarklettsveg.
Núverandi húsnæði takmarkar getu Góða hirðisins til frekari vaxtar og til að taka á móti og selja alla þá nytjahluti sem til hans berast. Stærra húsnæði mun því auka endurnot á nytjahlutum og styður við markmið SORPU við innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Skrifstofur SORPU munu á sama tíma flytja í sama húsnæði,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að samhliða þessu hafi eigendur húsnæðisins við Köllunarklettsveg ákveðið að helga fasteignina klasastarfsemi fyrirtækja í græna geiranum á sviðum loftslagsmála, innleiðingu hringrásarhagkerfisins, sjálfbærni og sambærilegri starfsemi.