Í frétt DW segir að nokkur töf hafi orðið á því að úrslit voru kynnt en kosningarnar fóru fram á laugardaginn.
Samkvæmt landsskjörstjórn Túrkmenistans hlaut Serdar Berdymukhamedov 73 prósent atkvæða en kjörtímabilið er sjö ár. Auk hins fertuga Berdymukhamedov voru átta aðrir í framboði, þeirra á meðal nokkrir óþekktir embættismenn.
Úrslit forsetakosninganna koma fáum á óvart, enda hafði Berdymukhamedov eldri skipað son sinn í nokkur háttsett embætti á síðustu árum og þannig undirbúið jarðveginn að hann tæki við forsetaembættinuþegar fram liðu stundir.
Sá frambjóðandi sem hlaut næstflest atvæði í kosningunum var Khyrdyr Nunnayev, stjórnandi í háskóla, og hlaut hann ellefu prósent atkvæða.
Berdymukhamedov yngri hefur í túrkmenskum fjölmiðlum verið kallaður „sonur þjóðarinnar“. Hinn 64 ára Gurbanguly Berdymukhamedov, sem hlaut 97 prósent atkvæða í forsetakosningunum 2017, mun nú láta af embætti forseta en ætlar sér að halda áfram störfum sem forseti efri deildar túrkmenska þingsins. Hann tilkynnti um fyrirhugaða afsögn og kosningar í síðasta mánuði og sagði þá að rætt væri að „yngra fólk“ ætti að stjórna landinu.
Túrkmenistan er mjög ríkt af gasi sem það selur bæði til Rússlands og Kína. Íbúar ríkisins eru um sex milljónir en staða mannréttindamála í landinu þykir mjög bágborin.