Ljósmyndadeild Vísis, sem samanstendur af þeim Vilhelm Gunnarssyni og Ragnari Axelssyni (Rax), var á ferð um landið. Báðir voru þeir í fríi en þetta er það sem ljósmyndarar gera í sínum frítíma, fara um landið með ljósmyndavélina hangandi um hálsinn.
„Þú getur kallað þetta hvataferð ljósmyndadeildarinnar,“ segir Villi og hlær. Honum er þó ekki hlátur í huga en hann er björgunarsveitarmaður og gerir sér fulla grein fyrir alvöru máls. Hann og Rax voru staddir í Reynisfjöru í gær og urðu vitni af því þegar bandarískir ferðamenn vildu leika sér við stórhættulegar öldurnar. Mikið var um ferðamenn á staðnum í gær og svo virðist sem ferðaþjónustan sé komin á fullan snúning þrátt fyrir risjótta tíð. Annað hvort láta ferðamenn það ekki trufla sig og/eða að það er hluti aðdráttaraflsins.
Brimið í Reynisfjöru virðist ómótstæðilegt en eins og landsmenn vita er það ekkert lamb að leika sér við. Á undanförnum áratug hafa fimm látist í Reynisfjöru. Ef brimið nær tökum á fólki sleppir það ekki svo auðveldlega. Útsog er mikið og straumar sterkir.
Að sögn þeirra Villa og Raxa virðast viðvörunarskilti sem sjá má þar hvarvetna ekki hafa tilætluð áhrif. Þeir sáu þegar þrjár konur vildu leika sér við öldurnar, elta þær út fjöruna og svo hlaupa undan þeim þegar þær koma aftur að landi. En öldurnar eru misstórar og þegar ein stór kom hlupu þær að klettasnös sem þarna er að finna. Aldan náði að hrifsa eina með sér en hún slapp með skrekkinn. Hún og vinkonur hennar hlógu að þessu „ævintýri“ og virtust ekki hafa nokkra hugmynd um það þarna var háski á ferð.
Sjón er sögu ríkari.













