Hörður Björgvin Magnússon, leikmaður CSKA Moskvu, kemur aftur inn í hópinn eftir langa fjarveru vegna meiðsla.
Sverrir Ingi Ingason, Guðlaugur Victor Pálsson og Mikael Neville Anderson gáfu ekki kost á sér af persónulegum ástæðum að sögn Arnars Þórs.
„Ég ætla að byrja á því að upplýsa að það voru þrír leikmenn sem gáfu ekki kost á sér. Guðlaugur Victor, Sverrir Ingi, Mikael Neville,“ sagði Arnar Þór á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag. „Allar ástæðurnar eru persónulegar og ekkert sérstakt þar á bak við. Mikael er að verða pabbi í annað skiptið.“
Hópur A karla sem mætir Finnlandi 26. mars í Murcia og Spáni 29. mars í A Coruna í vináttuleikjum.
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) March 18, 2022
Our squad for two friendlies against Finland and Spain, both played in Spain in March.#fyririsland pic.twitter.com/AXR6okntW6
Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason eru fjarverandi vegna meiðsla. Birkir Bjarnason er langreyndastur í hópnum, með 105 landsleiki. Jón Daði Böðvarsson, sem hefur leikið vel með Bolton Wanderers að undanförnu, er næstreyndastur með 62 landsleiki.
Ísland mætir Finnlandi 26. mars og Spáni þremur dögum síðar. Báðir leikirnir fara fram á Spáni. Í byrjun júní leikur íslenska liðið svo fjóra leiki í Þjóðadeildinni.