Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fór yfir stöðu frumvarpsins í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í dag og var þar spurður út í gagnrýni Halldóru Mogensen, þingmanns Pírata, sem lýsti yfir vonbrigðum vegna málsins. Halldóra sagði að svo virtist sem að það ætti að svæfa málið í nefnd.
Að sögn Willums er ágreiningur um ýmis atriði tengd frumvarpinu sem þurfi að lagfæra og mun starfshópur sem hann skipaði vinna í því. Nýverið varð ljóst að þeirri vinnu yrði ekki lokið þegar að öll mál eiga að vera komin inn í þingið um næstu mánaðarmót.
„Starfshópurinn treystir sér ekki til að klára þetta fyrir fyrsta apríl en við viljum vanda okkur og gera þetta vel og og bæta málið. Þannig ef að það tekst vel til þá reikna ég með því að ég komi með frumvarpið betrumbætt, sem á þá meiri möguleika og tekur betur utan um þennan viðkvæma hóp sem við sannarlega viljum gera, og það væri þá bara eitt af fyrstu málunum á haustþingi,“ segir Willum.
Samráð verði haft við ýmsa aðila
Hann segir að áhersla sé lögð á mjög breitt samráð innan starfshópsins, ekki síst við þá sem þekkja stöðu þessa viðkvæma hóps. Þá verður leitað í alþjóðlegt samráð og rætt við sérfræðinga sem hafa leitt svipaða vinnu í öðrum löndum. Einnig verður leitast við að hafa fulltrúa þeirra sem neyta vímuefna.
„Þessi starfshópur er mjög fjölbreyttur og þar verða meðal annars fulltrúar frá Rauða krossinum, Frú Ragnheiði og fjölmörgum öðrum aðilum og það verður örugglega leitað til þeirra aðila, ég get fullyrt það,“ segir Willum en þar að auki verður verkefnið unnið í samvinnu við rannsóknarstofu í afbrotafræði sem býr yfir gögnum um þennan hóp.
Willum var einnig spurður út í ágreining sem uppi hefur verið um hvort það eigi að koma á refsileysi fyrir vörslu fíkniefna eða að lögleiða fíkniefni.
„Eins og hugmyndafræðin er í þessu að þá er það viðurkenning á þessu sem heilbrigðisvanda, við erum með sjúklinga í vanda og við viljum taka þannig utan um þennan hóp,“ sagði Willum og vísaði til refsileysis. Hann er þó fylgjandi því að fíkniefni verði gerð upptæk, finnist þau á fólki.
„Ég held að það sé rétt nálgun. Nú ætla ég að leyfa hópnum að vinna sína vinnu og horfa betur inn í málið áður en ég fullyrði um það, en ég held að það sé nálgunin í þessu máli,“ segir Willum.