Í Gunnbjarnarholti er eitt stærst fjós landsins með um 200 kúm. Fjórir mjaltabásar eru í fjósinu þar sem kýrnar fara í til að láta mjólka sig fyrir nýju mjólkurvinnsluna á bænum. Þar inni er Anna Kristín Lárusdóttir, matvælafræðingur að setja ófitusprengda mjólk í glerflöskur þar sem hægt er að fá þrjár mismunandi bragðtegundir. Einnig er Hreppajógúrt framleitt í vinnslunni, sem fer í glerkrukkur.
„Allir límmiðar eru handlímdir á flöskurnar og það er helt í þær úr könnu, þannig að það er mikið handverk við hverja flösku. Þetta er mjög spennandi og skemmtilegt verkefni,“ segir Anna Kristín.
Nýja verkefnið í Gunnbjarnarholti er að fá mjög góðar viðtökur.
„Já, hingað til höfum við bara fengið jákvæðar móttökur og við erum ótrúlega ánægð með hvað fólk tekur vel í þetta. Sumum finnst þetta líkjast við gamla tímann, að fá mjólk í glerflösku og svo átappar þú feitri mjólk. Fólk er bara virkilega ánægt með þetta og sérstaklega hvað þetta er umhverfisvænna heldur en fernumjólkin að því að við ætlumst til þess að fólk nýti flöskurnar aftur,“ segir Margrét Hrund Arnarsdóttir framkvæmdastjóri Hreppamjólkur.

Í dag er hægt að fá Hreppamjólkina í þremur sjálfsölum í verslunum Krónunnar, þ.e. í Lindum, úti á Granda og á Selfossi. Í sumar verður settur sjálfsali við Gunnbjarnarholt þar sem hægt verður að fá vörurnar úr heimavinnslunni.
En það er ekki bara mjólkin sem fer í flöskurnar því í heimavinnsluna er líka verið að framleiða bakaða Hreppa jógúrt með engum viðbættum sykri, sem er líka í sjálfsölunum, sem hefur slegið í gegn.
