Síðastliðna viku hefur 161 einstaklingur með tengsl við Úkraínu sótt hér um vernd, eða að meðaltali 23 á dag. Ef sjö daga meðaltalið er notað sem forspárgildi má gera ráð fyrir að um 644 einstaklingar með tengsl við Úkraínu muni sækja hér um vernd næstu fjórar vikur. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu landamærasviðs ríkislögreglustjóra.
Á fimmtudag var nýting skammtímaúrræða fyrir einstaklinga sem sækja um vernd 85% hér á landi og nýting langtímaúrræða 93%.
Stendur til að semja við gisti- og hóteleigendur
Frá því að innrásin hófst fram til föstudags höfðu 3.764.028 einstaklingar flúið stríðsátökin í Úkraínu til nágrannaríkja í Evrópu, samkvæmt upplýsingum landamærasviðs. Flestir hafa komið til Póllands eða 2.262.874 einstaklingar.
Fram kemur í stöðuskýrslunni að félagsmálaráðuneytið vinni nú að gerð samninga við gisti- og hóteleigendur sem vonir séu bundnar við að tryggi fullnægjandi skammtímaúrræði fyrir einstaklinga sem sæki um vernd. Heildarfjöldi einstaklinga sem nú er í þjónustu með tengsl við Úkraínu er sagðir vera 395.
Opna móttökumiðstöð í Domus Medica
Til stendur að flytja móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um vernd úr Hafnarfirði í Domus Medica í þessari viku. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun þar vera með starfsemi og mun heilsufarsskoðun fara fram strax við komu á móttökustöðina.
Síðasta miðvikudag var greint frá því að álag á móttökukerfið á Íslandi vegna komu einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd væri komið að þolmörkum. Viðbragðsáætlun vegna yfirálags á landamærum hefur verið virkjuð og er nú á óvissustigi. Til skoðunar er að færa viðbragðsáætlunina á hættustig sem er næst efsta stig viðbúnaðarkerfisins.
Alls hafa 820 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi frá 1. janúar til 24. mars. Fjölmennasta þjóðernið eru einstaklingar með tengsl við Úkraínu eða 485 einstaklingar. Þar á eftir eru 204 einstaklingar með tengsl við Venesúela.