Kompás og fréttastofan hafa fjallað um trúarofbeldi og aðstæður fólks innan kristinna sértrúarsafnaða, þar sem fyrrverandi meðlimir hafa stigið fram og lýst reynslu sinni. Eva Dögg Davíðsdóttir átti frumkvæði að skýrslubeiðninni til barnamálaráðherra þegar hún sat á þingi sem varaþingmaður VG nú í mars.
„Ég sá að það hefur í raun ekki verið farið út í svona athuganir hvernig börn standa innan trú og lífsskoðunarfélaga. Og þá á ég við þennan stóra hóp, 80 þúsund börn, sem eru innan trú- og lífsskoðunarfélaga, líka þjóðkirkjunnar,” segir Eva.
Skoða hvort það þurfi sérstakt eftirlit með starfinu
Níu þingmenn úr fjórum flokkum eru á þingskjalinu, flest úr VG, en líka frá Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum. Eva Dögg bjó í Noregi og segir hún töluverða umræðu þar um aðstæður barna innan trúarhópa.
„Það kom mér á óvart að sjá hversu lítið við höfum gert til að gæta að réttarstöðu barna innan trúfélaga.”
Skýrslan verður í fimm liðum og verður þar meðal annars skoðað hvaða afleiðingar það getur haft á börn að alast upp við afmarkaða menningu innan trúfélags, hvaða hindrunum börn kunni að mæta ef þau yfirgefa trúfélag, hvort það eigi að auka eftirlit með æskulýðsstarfi innan trúfélaga.

Fyrsta úttektin á stöðu barna innan trúarhópa
Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra segir aðkomu fleiri ráðuneyta nauðsynlega og að þetta sé tímabært skref að taka.
„Börn eiga að fá að hafa sína rödd og þau eiga að hafa sín réttindi. Og það er alveg sama hvar það er í íslensku samfélagi að börn búa við óréttlæti eða að raddir þeirra fá ekki að heyrast eða þau fá ekki að segja sína skoðun, þá þurfum við að grípa inn í.”
„Mér vitanlega hefur ekki verið unnin vinna á sambærilegum nótum áður,” segir Ásmundur Einar. „Ég lít á þessa skýrslubeiðni að hún sé líka hugsuð til þess að við tökum þennan þátt sérstaklega fyrir og það er gott tilefni til þess. Og það að það séu þingmenn frá fleiri en einum flokki á henni, það gefur líka tilefni til þess að sýna að þetta er mikilvægt skref í því að taka réttindamál barna á næsta stig.”