„Formaður Eflingar - stéttarfélags mótmælir órökstuddum yfirlýsingum forseta Alþýðusambands Íslands um lýðræðislegar ákvarðanir stjórnar Eflingar varðandi innri skipulagsmál á skrifstofum félagsins,“ segir í upphafi yfirlýsingar.
Ákvörðun um uppsagnir málefnaleg
Eins og Vísir hefur greint frá hefur Drífa, auk annarra verkalýðsleiðtoga, verið harðorð um hópuppsagnir sem boðað hefur verið til á skrifstofum Eflingar. Friðrik Jónsson formaður BHM hefur talað um að uppsagnirnar veki óhug og til þess séu refirnir skornir að losa sig við óæskilegt starfsfólk.
Ekki segir Sólveig Anna: „Ákvörðun stjórnar Eflingar um breytingar sem nú standa yfir er tekin á skýrum og málefnalegum grunni. Eru þær breytingar hugsaðar til að innleiða samræmi, jafnrétti og gagnsæi í launakjörum starfsfólks, innleiða eðlilegt bil milli hæstu og lægstu launa á skrifstofunum, og gera aðrar löngu tímabærar og nauðsynlegar breytingar á skipulagi.“
Sólveig Anna tekur fram að Drífa hafi ekki haft fyrir því að leita upplýsinga eða skýringa frá formanni eða stjórn Eflingar.
„En [hún] hikar þó ekki við að fordæma opinberlega þeirra störf í þágu félagsfólks í Eflingu.
Það eru sorgleg nýmæli að forseti Alþýðusambandins ráðist á verka- og láglaunafólk í stjórn eins af aðildarfélögum ASÍ með þessum hætti,“
segir í yfirlýsingu Sólveigar Önnu.
Sólveig Anna segir að aðilar hafi rofið trúnað
Þar kemur einnig fram að Baráttulistinn, listi Sólveigar Önnu í síðustu kosningum innan Eflingar, hafi lýst því yfir í kosningabaráttu að hann myndi gera „nauðsynlegar breytingar á rekstri skrifstofu Eflingar. Við það loforð verður staðið.“
Þá segir jafnframt að í því ferli yfirstandandi sé lögum og vinnubrögðum sem gilda fylgt í einu og öllu. „Óhjákvæmilegt er að segja upp öllum ráðningarsamningum, en allt starfsfólk verður hvatt til að sækja um auglýst störf að nýju.“
Fram kemur í yfirlýsingunni að yfir standi lögbundið samráð við fulltrúa starfsfólks sem lögum samkvæmt ber að fara fram í trúnaði.
„Formaður Eflingar harmar að aðilar hafi rofið trúnað, lekið gögnum í fjölmiðla og tjáð sig þar með óvarlegum hætti áður en því samráðsferli lauk,“ segir í lokaorðum yfirlýsingarinnar.