Það var í ágúst í fyrra, sem bílaþvottastöðin var opnuð í fínu iðnaðarhúsnæði á góðum stað á Akranesi. Það hefur verið allt vitlaust að gera síðan, enda er Alexander Dagur í skýjunum með viðtökurnar, sem hann hefur fengið.
„Já, það gengur mjög vel. Það er mikið að gera hjá okkur, stíft prógramm alla daga. Við bjóðum upp á alþrif, þvott að utan og innan, einungis að utan eða einungis að innan, við erum með djúphreinsun og við getum massað og og svo fer það bara eftir því sem kúnninn vill hverju sinni,“ segir Alexander.

Vegna vinsældar stöðvarinnar þurfti Alexander Dagur fljótlega að ráða sér starfsmann og þá var komið að því að gera ráðningarsamning við pabba sinn.
„Hann hefur alltaf verið forsprakki og gert bara það sem honum dettur í hug að gera og bara framkvæmt það. Það er búið að vera vitlaust að gera núna, sérstaklega eftir að sólin hækkaði á lofti. Pabba gamla er þrælað út hérna meira og minna í vaktarfríunum þess á milli, sem ég er ekki á vöktum í álverinu, þá er ég hjá stráknum“, segir Helgi Þór Sveinbjörnsson, stoltur af stráknum sínum.

„Það er bara fínt þegar ungt fólk lætur drauma sína rætast. Hann er að fá mjög góðar viðtökur enda var þörf á þessari þjónustu á staðnum“, segir Mjallhvít Magnúsdóttir, íbúi á Akranesi og ánægður viðskiptavinur bílaþvottastöðvarinnar.

Það er ekki nóg með það að Alexander Dagur sé góður í að þrífa bíla, því hann er ótrúlega liðugur og getur gert alls konar kúnstir þegar kemur að því, enda kattliðugur.

