Finnski fjölmiðillinn Iltalehti greinir frá þessu í kvöld þar sem fram kemur að ríkin stefni að því að sækja um aðild í maí. Ekkert hefur þó verið formlega ákveðið um aðild ríkjanna að NATO.
Í frétt Iltalehti segir einnig að sænsk yfirvöld hafi óskað eftir því við finnsk yfirvöld að ríkin sendi inn umsókn á sama tíma, það er að ef finnsk yfirvöld ákveði að óska eftir aðild að NATO muni þau bíða með að senda inn umsókn þangað til að áætlanir Svía liggi fyrir.
Í frétt fjölmiðilsins kemur fram að Finnar muni taka endanlega ákvörðun um aðildarumsókn á næstu dögum og vikum. Umræður um mögulega aðild hafa gengið hratt fyrir sig í Finnlandi sem mun hafa haft áhrif á umræður í Svíþjóð.
Í frétt Iltalehti segir að Finnar hafi tekið vel í beiðni Svía, svo lengi sem að Svíar taki ákvörðun um aðildarumsókn fljótlega.
Segir í frétt Iltalehti að umsóknir ríkjanna gætu borist þann 16. maí eða í kringum þá dagsetningu. Þá mun forseti Finna fara í opinbera heimsókn til Svíþjóðar.
Sænski fjölmiðillinn Expressen segist hafa sömu eða svipaðar upplýsingar og koma fram í frétt finnska fjölmiðilsins. Þar kemur einnig fram að yfirvöld í Svíþjóð hafi gefið í þegar kemur að því að kanna aðild að NATO.
Finnar og Svíar hafa í gegnum tíðina verið hlutlaus ríki, ekki síst vegna nálægðar þeirra við Rússland. Ríkin gerðust þó samstarfsaðilar NATO skömmu eftir að þau gengu í Evrópusambandið á tíunda áratug síðustu aldar.
Innrás Rússa í Úkraínu hefur ýtt ríkjunum tveimur í átt að NATO-aðild, sem nú virðist vera í pípunum.