Tölur úr Reykjavík - eftir þeim bíða um 150 þúsund borgarbúar spenntir á fjögurra ára fresti.
Kjörstaðir loka klukkan tíu og síðustu kosningar hafa fyrstu tölur borist nokkru skömmu eftir það.
En kjörstjórnin hafði gefið það út í gær að tölurnar yrðu seinna á ferðinni í þetta skiptið.
Þetta fór í taugarnar á mörgum eins og var komið inn á í kosningasjónvarpi okkar í gær.
Í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld rifjuðum við upp biðina og ræddum við Evu B. Helgadóttur, formann yfirkjörstjórnar í Reykjavík, um tafirnar:
Eyðublöð, undirskriftir, raðnúmer, teygjur og exelskjöl
Tölurnar birtust loksins klukkan rúmlega hálf tvö í nótt og þær skýrast af nýrri reglugerð sem sett var á fyrir tæpum mánuði gerir kröfur um gjörbreytt talningarferli.
„Nú þarf að útbúa eyðublað með raðnúmeri á hvern bunka sem er talinn hæfilegur og báðir talningarmenn þurfa að kvitta á þetta eyðublað, afhenda svo þeim sem sér um exelskjalið sem að tekur bunkann og færir hann inn í exelskjalið,“ segir Eva.
Öll þessi skref sem Eva lýsir hér eru ný og aldrei verið viðhöfð áður.
„Þannig það í rauninni kemur hökt á allt flæðið sem hefur í raun og veru verið verklagið í marga áratugi,“ segir hún.
Og þetta er Eva eiginlega alls ekki sátt með. Hver er tilgangur þessarar nýju reglugerðar sem var sett á mánuði fyrir kosningar?
„Mér finnst þetta tilgangslaust og fólkið sem að er á gólfinu og hefur alla þessa miklu reynslu það skilur ekki tilganginn í þessu og finnst eiginlega enginn ávinningur í þessu.“