Morðinginn kom fyrir dómara í Buffalo í dag en hafði sig ekki frammi. Nokkrir aðstandendur fórnarlamba hans voru í dómsal. AP-fréttastofan segir að þegar réttarverðir leiddu manninn út úr salnum hafi einhver kallað á eftir honum „Þú ert heigull!“
Yfirvöld rannsaka enn hvort að maðurinn hafi gerst sekur um hatursglæp og hryðjuverk. Hann er talinn hafa samið skjal þar sem hann fór í löngu máli í gegnum rasíska samsæriskenningu sem er orðin útbreidd á hægri væng bandarískra stjórnmála um að ákveðin öfl flytji innflytjendur til Bandaríkjanna gagngert til þess að ryðja hvítu fólki úr vegi.
Lögmaður mannsins sagði hann lýsa sig saklausan af ásökunum um morð þegar hann kom fyrst fyrir dómara í síðustu viku.