Sagt er frá framkvæmdinni í Skálholti í gær á vef Þjóðkirkjunnar. Var notast við stærðarinnar krana og var búið að rjúfa hluta af þaki suðurhluta turnsins til að klukkan, sem gefur tóninn H1, gæti sigið niður á hlað.
Hafa þagað síðan í haust
Í turninum hafa verið fimm klukkur en þær hafa þagað síðan í haust vegna framkvæmdanna í kirkjunni.

„Í tilefni Skálholtshátíðar 1956 gáfu þrjár Norðurlandaþjóðanna kirkjuklukkur í Skálholt og studdu við endurreisn staðarins og byggingu kirkjunnar með mörgu öðru móti. Svíar gáfu tvær klukkur, Norðmenn eina og Finnar eina. Danska klukkan kom í kirkjuna 1961. En dönsku bræðurnir Ludvig Storr, aðalræðismaður í Reykjavík, og Edvard Storr, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn, gáfu klukkuna. Þeim fannst afleitt að ekki væri líka dönsk klukka í Skálholti með bræðra- og systralags klukkunum norrænu. Stærstu klukkurnar vega 700 kg og sú minnsta 500 kg. Það eru sænsku klukkurnar tvær sem eru stærstar og þyngstar,“ segir á vef Þjóðkirkjunnar.

Brotnaði á Skálholtshátíð 2002
Danska klukkan sem brotaði á Skálholtshátíð 2002 hefur legið brotin í kirkjuturninum frá 2002. Það var Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju sem safnaði fyrir nýju klukkunni sem kostaði tvær milljónir króna og var steypt í Hollandi hjá Petit & Fritsen. Mestu munaði um framlag AP-Møller sjóðsins í Danmörku.
„Á næstunni koma danskir starfsmenn Thomo klokkeservice til að setja klukkurnar upp og tengja mótora og fleira sem þarf að gera. Vélsmiðjan Óðinn sá um smíði á grind í kringum klukkuna.
Nýja klukkan ásamt hinum mun hljóma á komandi Skálholtshátíð í júlí og verður það vígsluhringing hennar,“ segir á vef Þjóðkirkjunnar.
