Kristian hefur farið á kostum með U21-landsliðinu á síðustu dögum í sigrunum á Liechtenstein og Hvíta-Rússlandi. Nú er svo komið að ef að Ísland vinnur Kýpur í kvöld, og Portúgal vinnur Grikkland á heimavelli, kemst Ísland í umspil um sæti í lokakeppni EM.
Kristian tekur undir að það sé óþægilegt að vera með leikinn á milli Portúgals og Grikklands á bakvið eyrað:
„Já, pínu, því Grikkland er náttúrulega við stjórnina. Ef þeir gera jafntefli þá komast þeir áfram. En við þurfum bara að hugsa um okkur og klára okkar,“ segir Kristian.
Hann tryggði Íslandi 1-1 jafntefli í útileiknum við Kýpverja með marki seint í uppbótartíma:
„Þeir eru mjög sterkir fótboltalega séð, geta spilað fínan fótbolta og eru frekar pirrandi leikmenn. Þeir henda sér bara niður og tefja og slíkt, ef þeir komast yfir og svona. Við þurfum bara að koma í veg fyrir að þeir komist yfir og spila okkar bolta,“ segir Kristian en Ísland hefur leikið afar vel í síðustu leikjum:
„Allir leikirnir eru búnir að vera mjög góðir hjá okkur,“ segir Kristian sem tekur undir að hann megi svo sannarlega vera stoltur af eigin frammistöðu: „Já, ég myndi segja það. Þessir tveir leikir eru búnir að vera góðir hjá mér og liðinu, og við verðum klárir í þann næsta.“