Hanseyja í Naressundi aðeins 1,2 ferkílómetrar að stærð en bæði Kanadamenn og Danir hafa gert tilkall til hennar frá árinu 1971. Hún er jafnlangt frá ströndum Grænlands og Ellesmere-eyju í Kanada.
Ríkin frestuðu að gera út um deilurnar en á níunda áratugnum færðist meira kapp í þær. Þannig lentu kanadískir hermenn á Hanseyju og stungu niður fána árið 1984. Þeir grófu jafnframt flösku af kanadísku viskíi.
Grænlandsmálaráðherra Danmerkur svaraði fyrir sig nokkrum vikum síðar, skipti úr kanadíska fánanum fyrir þann danska og skildi eftir flösku af dönskum snafsi.
Síðan þá hafa ríkin háð svonefnt „Viskístríð“ sem nú sér fyrir endann á. Hafa fulltrúar þeirra skipst á að skilja eftir fána og brennda drykki á eyjunni sem er lítið meira en grjóthnullungur í hafinu.

Fyrst byrjaði að þokast í samkomulagsátt þegar ríkin stofnuðu sameiginlegan vinnuhóp til að binda enda á deilurnar árið 2018. Tillaga hans er að ríkin skipti Hanseyju bróðurlega á milli sín, um það bil til helminga eftir náttúrulegu skarði í klettinum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
„Þegar öryggi heimsins er ógnað er mikilvægara en nokkru sinni áður að lýðræðisríki eins og Kanada og danska konungsveldið vinni saman ásamt frumbyggjum að því að leysa úr ágreiningsmálum okkar í samræmi við alþjóðalög,“ sagði Melanie Joly, utanríkisráðherra Kanada, í yfirlýsingu í tilefni samkomulagsins.
Með samkomulaginu verða til lengstu samfelldu landamæri í sjó í heiminum, alls 3.882 kílómetrar frá Lincoln-hafi í norðri til Labradorhafs í suðri.