Ráðningarsamningurinn við Þór kveður á um að laun bæjarstjórans séu 1.833.000 krónur og að þau breytist á 12 mánaða fresti í réttu hlutfalli við breytingar á launum sviðsstjóra sveitarfélagsins. Jafnframt greiðir sveitarfélagið bæjarstjóra akstursgjald sem miðast við 500 km akstur í mánuði sem gerir um 63.500 krónur á mánuði.
Peningur sem gæti nýst skólum, félagsþjónustu og tómstundastarfi
Fulltrúar Samfylkingar og óháðra lögðu fram bókun vegna ráðningasamningsins þar sem þau tóku saman laun bæjarstjórans. Heildarlaun hans væru, með aksturstyrk og þóknunum fyrir setu í bæjarstjórn og stjórn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, um 2,4 milljónir á mánuði.
Í bókuninni kom jafnframt fram að launin væru of há fyrir stjórn í 4700 manna bæjarfélagi, sem væri þar að auki að takast á við erfiða fjárhagsstöðu. Þau lögðu til að hægt væri að lækka laun bæjarstjóra um að minnsta kosti 500 þúsund krónur á mánuði. Það væru mun eðlilegri laun miðað við ábyrgð og umfang starfsins.
„Sú lækkun myndi skila 6 milljónum á ári sem hægt væri að nýta til að bæta umhverfi skólanna, styrkja félagsþjónustuna eða styrkja tómstundastarf barnanna okkar á nesinu,“ segir í bókuninni.