Miðvörðurinn Glódís Perla er einn af máttarstólpum íslenska liðsins sem mætir til leiks á Evrópumótinu í Englandi. Hún hefur spilað 101 leik fyrir Íslands hönd og er í raun ómögulegt að spá fyrir hvað þeir verða margir. Glódís Perla er á leið á sitt þriðja Evrópumót.
Meistaraflokksferillinn hófst með HK/Víking þegar hún var aðeins 14 ára gömul. Hún fór til Stjörnunnar fyrir sumarið 2012 og var í lykilhlutverki þegar liðið varð Íslandsmeistari ári síðar með fullt hús stiga. Eftir að verða meistari á nýjan leik haustið 2014 hélt Glódís Perla til Svíþjóðar.
Þar lék hún með Eskilstuna United til 2017 þegar hún gekk í raðir FC Rosengård. Eftir fjögur góð ár þar var komið að breytingum. Gekk Glódís Perla í raðir þýska stórliðsins Bayern München og leikur þar enn.

Fyrsti meistaraflokksleikur? Fyrst keppnisleikur var þegar ég var 14 ára með HK/Víking á móti Selfossi árið 2009.
Hver hefur kennt þér mest í fótbolta? Tveir þjálfarar sem standa upp úr hjá mér eru JP sem þjálfaði mig í Danmörku og Jonas Eidevall (þjálfar Arsenal í dag) sem þjálfaði mig í Rosengård.
Lag sem kemur þér í gírinn fyrir leik? Keyrum inn í helgina.
Mætir einhver af fjölskyldu/vinum til að styðja þig á EM? Það ætla alveg margir í stórfjölskyldunni að koma og einhverjir vinir svo við verðum með góðan stuðning frá mínu fólki.
Hvaða námi eða vinnu hefur þú sinnt (fyrir utan fótbolta)? Ég var að vinna á leikskóla áður en ég fór út í atvinnumennsku og síðan þá er ég búin með BA í sálfræði og búin með einkaþjálfaranám.
Í hvernig skóm spilarðu? Puma Ultra
Uppáhalds lið í enska? Manchester United
Uppáhalds tölvuleikur? Bubble Trouble.
Uppáhalds matur? Stappaður fiskur og kartöflur með smjöri og salti.
Fyndnust í landsliðinu? Alveg margar mjög fyndnar en verð að segja Cessa eða Gunný.
Gáfuðust í landsliðinu? Munda.
Óstundvísust í landsliðinu? Karólína Lea.
Hvaða lið vinnur EM (ef ekki Ísland)? England.
Hvað er skemmtilegast að gera milli æfinga og leikja í landsliðsferðum? Fá mér bolla og hlægja með stelpunum.
Besti andstæðingur/leiðinlegasti andstæðingur? Catarina Macario í Lyon er drullu góð.
Átrúnaðargoð í æsku? Katrín Jónsdóttir.
Nefndu eina staðreynd um þig sem fáir vita? Ég hef unnið söngvakeppni Kópavogs.