Þetta er niðurstaða Landsréttar í úrskurði sem féll síðastliðinn fimmtudag. Forsaga málsins er 600 milljóna króna skaðabótakrafa Vogunar hf. og fiskveiðihlutafélagsins Venusar hf. á hendur Björgólfi Thor vegna falls Landsbankans árið 2008. Björgólfur Thor hafði lagt fram ljósrit af frétt Ríkisútvarpsins í júní 2021 um yfirlýsingu sem Halldór sendi frá sér í tengslum við dómsmál Alvogens gegn Halldóri.
Fullviss um að gögnin yrðu notuð gegn honum
Kröfu sinni til stuðnings benti Björgólfur á að í yfirlýsingunni sé vísað til greinargerðar Halldórs í dómsmálinu gegn Alvogen, þar sem því er haldið fram að Róbert Wessman hafi falið lykilstjórnendum fyrirtækanna Alvogen og Alvotech, Halldóri þar á meðal, að undirbúa og leiða hópmálsókn gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni.
Taldi Bjögólfur að fyrrgreind greinagerð, auk tuga tölvupósta og annarra dómskjala skiptu máli í ljósi skaðabótakröfu Venusar og Vogunar og taldi að gögnin myndu leiða í ljós að Róbert og lykilstjórnendur Alvogen og Alvotech hafi haft fulla stjórn á hópmálsókn gegn Björgólfi Thor vegna falls Landsbankans.
Halldór Kristmannsson kvaðst hins vegar „fullviss um að ef hann afhendi sóknaraðila gögnin, þá verði reynt að nota það gegn honum,“ almennt og í framangreindu máli Alvogen gegn honum. Honum sé mikið í mun að tryggja að hann brjóti ekki hugsanlegar trúnaðarskyldur sínar gagnvart fyrrum vinnuveitanda.
Landsréttur taldi að af málsgögnunum mætti ráða að í umræddum skjölum væri hvergi vikið að Vogun hf. eða fyrirsvarsmönnum þess félags. Fallist var á að Björgólfur hefði ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að skjölin hefðu þýðingu fyrir sakarefni málsins þannig að rétt væri að leggja þá skyldu á Halldór að afhenda þau. Var kröfu Björgólfs því hafnað.