Biden, sem fordæmdi Sádi Arabíu harðlega fyrir tveimur árum vegna morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi, mun funda með bæði Salman konungi og syni hans, krónprinsinum Mohammed bin Salman, sem er sagður hafa fyrirskipað morðið.
Leiðtogarnir eru sagðir munu ræða orku- og mannréttindamál, auk samvinnu á sviði öryggismála. Gera má ráð fyrir því að Biden freisti þess að fá Sádi Araba til að auka olíuframleiðslu vegna refsiaðgerða Vesturlanda gegn Rússum.
Stjórnvöld í Sádi Arabíu tilkynntu í gær að þau hygðust opna lofthelgi sína fyrir almennu flugi frá Ísrael.
Fundur Biden og Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, verður fyrsti fundur háttsettra embættismanna ríkjanna frá því að skrifstofum PLO í Washington var lokað í stjórnartíð Donald Trump.
Palestínumenn vilja aukna aðkomu Bandaríkjamanna að tilraunum til að koma aftur á friðarviðræðum við Ísraelsmenn og að sendiskrifstofa Bandaríkjanna í Jerúsalem verði opnuð aftur en henni var lokað af Trump.