Atvinnulífið hefur áður fjallað um útundanótta sem fólk getur upplifað þegar það starfar í fjarvinnu. Útundanóttinn byggir þá á óttanum um að vera ekki hluti af liðsheildinni eða gleymast.
Útundanótti í einkalífinu er síðan annað fyrirbæri. Þá óttast fólk oft að allir aðrir séu að hafa það betra eða gera meira en það sjálft og horfa jafnvel á samfélagsmiðla sem staðfestingu á að svo sé.
Í vinnunni er fómó líka staðreynd, þótt fólk sé ekki að vinna í fjarvinnu.
Fómó getur til dæmis birst þannig að fólk er hrætt við að vera ekki hluti af liðsheildinni eða því teymi sem það vill helst vera í á vinnustaðnum.
Eða fómó sem byggir á viðvarandi tilfinningu eða ótta um að vera mögulega að missa af einhverjum starfstækifærum.
Enn sem komið er, hefur lítið verið rætt um eða rannsakað hver áhrifin á þessum útundanótta, eða fómó, er að hafa á starfsfólk. Til dæmis hvort fómó sé að hafa áhrif á frammistöðu og getu fólks í starfi.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem birt var á Science Direct í hitteðfyrra, getur fómó í vinnunni aukið líkurnar á kulnun.
Hér eru nokkur atriði sem geta verið einkenni fólks sem glímir við fómó:
- Vill taka þátt í öllu (líka ákvörðunum) og vera alls staðar (líka á öllum fundum)
- Gefur sig þó ekki að fullu í neitt verkefni eða starf (því eitthvað betra gæti dúkkað upp)
- Er alltaf að fylgjast með símanum og þá sérstaklega samfélagsmiðlum og tölvupóstum
- Hefur áhyggjur af því að vera að missa af einhverju, þótt það sé upptekið sjálft (gæti verið eitthvað meira spennó að gerast annars staðar)
- Fer á staði, viðburði (ráðstefnur, málþing, fundi) sem því finnst ekkert gaman á
- Segja ekki Nei ef eitthvað er í gangi
- Mæta á viðburði, fundi og fleira þótt heilsan sé ekki góð
Niðurstöður rannsókna sýna að fómó getur haft alvarleg áhrif á heilsu fólks. Þar má nefna miklar skapsveiflur, neikvæðni, þunglyndi, kvíða, lágt sjálfsmat og fleira.
Fólk sem upplifir sig með fómó í vinnunni ætti ekki að hika við að leita sér aðstoðar. Til dæmis með því að opna á samtalið um fómó við yfirmann, mannauðstjóra eða leita til sálfræðings.