Loftslagsbreytingar hafa gert ástandið verra þar sem meiri hiti hraðar uppgufun og þyrstar plöntur drekka meira. Minni snjókoma á veturna hefur sömuleiðis dregið úr ferskvatnsbirgðum yfir sumartímann.
Vatnsból eru að tæmast víða og árfarvegir hafa þurrkað upp. Vatnsstaða í stærstu ám Evrópu er líka víða mjög lítil. Ástandið hefur sömuleiðis haft gífurleg áhrif á landbúnað víða um heimsálfuna.
Þurrkur er í nærri því helmingi Evrópu og búast sérfræðingar við svipuðu ástandi næstu þrjá mánuði.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar er Evrópa ekki eina heimsálfan þar sem þurrkar gera íbúum lífið leitt. Ástandið er einnig verulega slæmt í vesturhluta Bandaríkjanna, Mexíkó og Austur-Afríku.
Blaðamaður fréttaveitunnar sótti þorpið Lux í Frakklandi heim. Áin Tille rennur þar í gegn, við hefðbundnar aðstæður en nú er árfarvegurinn þurr og er þar ekkert annað að finna en dauða fiska. Jean-Philippe Couasné, yfirmaður náttúruverndarsamtaka á svæðinu, sagði að rennsli árinnar væri að meðaltali átta þúsund lítrar á sekúndu. Nú væri það núll.

Þetta ástand feli í sér að fiskategundir muni hverfa úr ánni. Fiskar hafi fundið skjól ofar í ánni en allt sé dautt neðar í ánni.
Guardian sagði frá því í morgun að miðillinn hefði heimildir fyrir því að yfirvöld í Englandi myndu brátt lýsa formlega yfir þurrki í átta af fjórtán héruðum landsins. Það fæli í sér að vatn yrði skammtað í þeim héruðum.
Mögulega yrði bannað að þvo bíla, hús og annað með vatni og notkun úðara gæti sömuleiðis verið bönnuð.

Veikari skotvindar
Vatnsból hafa lækkað verulega og ár eru sömuleiðis að þorna upp víða. Sérfræðingar óttast að ástandið muni svo versna áfram á næstu árum ef rigning aukist ekki til muna og til lengri tíma.
Sérfræðingar sem AP ræddi við segja loftslagsbreytingar hafa dregið úr hitamuni milli mismunandi svæða jarðarinnar. Það hafi meðal annars dregið úr krafti skotloftavinda (e. jet stream) sem flytja meðal annars rakt loft frá Atlantshafinu yfir Evrópu.
Veikara streymi skotvinda veldur því einnig að heitt loft getur auðveldar borist norður frá Afríku og kalt loft suður frá Norðurskautinu.


Hér að neðan má sjá ástandið í Po, lengstu á Ítalíu.