Fellibylurinn Hinnamnor er sá öflugasti sem riðið hefur yfir á þessu ári en hann gekk yfir Kóreuskaga í byrjun vikunnar. Fellibylnum hafa fylgt miklar rigningar og flóð en björgunaraðilar þurftu að synda í gegn um drullugt vatnið til þess að komast inn í bílakjallarann, sem var nærri uppfullur af flóðvatni.

Björgunaraðilum tókst að bjarga tveimur úr kjallaranum, sem haðfði víst tekist að hanga í pípum í lofti kjallarans í meira en tólf klukkustundir. Samkvæmt frétt Yonhap voru allir níu, sem lagt höfðu leið sína í kjallarann, íbúar í byggingu, þar sem íbúar höfðu verið hvattir til að færa bíla sína fyrr um daginn.
Þeir sem lifðu flóðið í bílakjallaranum af, maður á fertugsaldri og kona á sextugsaldri, eru sögð ágætlega á sig komin þrátt fyrir raunir gærdagsins.
Atburðurinn átti sér stað í borginni Pohang, sem er verst leikin vegna fellibyljarins. Hótel í borginni hrundi til að mynda í miðjum storminum en að sögn forsvarsmanna þess sluppu allir ómeiddir. Minnst tíu hafa látist vegna fellibyljarins.

Suður-Kórea, eins og mörg lönd í Austur-Asíu, hafa verið grátt leikin undanfarna mánuði vegna mikilla rigninga og mikilla hitabylgja. Í byrjun ágústmánaðar flæddi víða vegna rigninga, þar á meðal í höfuðborginni Seoul. Minnst átta létust í þeim flóðum, þar á meðal þrír sem bjuggu í kjallaraíbúð.
Dauðsföll þremenninganna í kjallaranum urðu til þess að Kóreuforseti setti lögbann við útleigu slíkra íbúða, sem þekkjast undir nafninu banjiha. Íbúðirnar vöktu gríðarlega athygli í Óskarsverðlaunamyndinni Parasite en þær eru oftast leigðar fátæku fólki, sem hefur engan betri stað á að fara, og býr við mjög bág kjör.