Í fréttatilkynningu segir að húsakynni sendiherrabústaðarins umbreytist tímabundið í sýningarsal og til verður rými fyrir list á diplómatískum vettvangi.
„Til sýnis verða verk úr safnkosti Listasafns Íslands sem verða sett í athyglisvert samhengi við verk eftir samtímalistafólk sem búsett er í Austurríki og/eða hefur sérstaka tengingu við Austurríki. Þannig skapast samtal milli verka eftir frumkvöðla í íslenskri listasögu og nútímalistsköpunar og opið samband myndast milli ólíkra sjónarhorna,“ segir í tilkynningunni.
Í dag opnar RUTs GALLERY svo sýninguna „Meeresspiegel – Sjávarmál“ en þar verða sýnd verk eftir listafólkið Huldu Vilhjálmsdóttur og Hjört Matthías Skúlason. Verk þeirra mynda ýmsar tengingar þrátt fyrir ólík sjónarhorn. Líkt og í sendiherrabústaðnum á sér stað umbreyting því sýningarsalurinn er fyrrum arkitektastofa og skapast sérstakt andrúmsloft í gamla skrifstofurýminu fyrir tilstilli listarinnar. Blaðamaður tók púlsinn á Hirti Matthíasi listamanni.
„Við Hulda höfum unnið að þessari sýningu síðastliðna þrjá mánuði og umfjöllunarefni okkar er sjórinn, sjórinn sem er okkur Íslendingum svo mikilvægur enda faðmar hann eyjuna okkar góðu.
Okkur fannst við yrðum að færa Austurríkismönnum svolítið af undurveröld sjávarins þar sem þeir hafa engan sjó.“