Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Gylfa Björn Helgason, formann Félags fornleifafræðinga en félagið lýsti yfir vonbrigðum sínum í kjölfar skipunarinnar og sagði ráðningaferlið hafa verið óvandað, ógagnsætt og metnaðarlaust, þá sérstaklega þar sem staðan var ekki auglýst. Þá sagði félagið að skipunin væri hluti af „embættismannaleik“ ráðherra.
Gylfi segir að félagið hafi ekkert heyrt frá umboðsmanni Alþingis varðandi kvörtun sína sem send var á embættið í lok ágúst. Þá segir hann að Lilja hafi talað um að bjóða stjórn félagsins á fund en hann hafi heldur ekkert heyrt frá henni síðan þá.
„Við bara bíðum átekta, það hlýtur að koma fljótlega,“ segir Gylfi í samtali við Fréttablaðið. Hann vill meina að ef staðan hefði verið auglýst hefðu að minnsta kosti sex manns innan fornleifafræðinnar sótt um embættið og líklegast enn fleiri safna- og sagnfræðingar.