Uppsetningartími útveggja nýja meðferðarkjarnans er áætlaður um fjórtán mánuðir og hafist verður handa í september á næsta ári. Framkvæmdin verður stærsta einstaka framkvæmd sem ríkið ræðst í næsta ári og sú stærsta innan Hringbrautarverkefnisins, að sögn Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra.

„Þjóðin hefur beðið lengi eftir því að sjá nýja meðferðarkjarna Landspítalans rísa hér við Hringbraut. Meðferðarkjarninn er gríðarstórt hús. Til að setja það í samhengi þá er framkvæmdin við að reisa útveggina ekki aðeins sú stærsta innan Hringbrautarverkefnisins heldur líka stærsta einstaka framkvæmd sem ríkið ræðst í á árinu 2023. Það eru því spennandi tímar fram undan fyrir Landspítalann og heilbrigðiskerfið í heild,“ er haft eftir honum í fréttatilkynningu um undirritun samningsins.
Meðferðarkjarninn verður stærsta byggingin í uppbyggingu Nýs Landspítala og mun gegna lykilhlutverki í meginmeðferðarstarfsemi spítalans. Meðferðarkjarninn er hannaður út frá starfsemi bráða- og háskólasjúkrahúss, með áherslu á einfalt og skýrt fyrirkomulag ásamt greiðum leiðum milli starfseininga og annarra bygginga, að því er segir í tilkynningunni.
Þar verði bráðamóttaka, gjörgæsla, skurðstofur, hjarta- og æðaþræðingar og myndgreining ásamt legudeildum og annarri stoðþjónustu svo sem dauðhreinsun og apótek fyrir sjúkrahúsið. Heilbrigðisstarfsemi í meðferðarkjarna muni þannig vera hluti af annarri starfsemi í þeim húsum sem þegar eru til staðar á Hringbrautarlóð.