DART-geimfar bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA var vísvitandi stýrt á smástirnið Dímoforos 26. september. Markmiðið var að afla upplýsinga og reynslu af því að breyta sporbraut smástirna sem gætu ógnað jörðinni.
Athuganir með sjónauka í Síle sýna að smástirnið er nú með hala úr ryki og öðru efni sem þeyttist frá gíg sem myndaðist á yfirborði þess þegar DART skall á því á ógnarhraða. Halinn er meira en tíu þúsund kílómetra langur.
Matthew Knight, frá rannsóknastofnun bandaríska sjóhersins, segir AP-fréttastofunni að efnistrókurinn standi frá smástirninu, aðallega vegna þrýstings frá geilsum sólar. Þegar halinn þynnist á endanum út verður brakið frá árekstrinum eins og hvert annað ryk sem flýtur um sólkerfið.
Frekari rannsóknir verða gerðar á hversu mikið efni þyrlaðist upp við áreksturinn og hvers kyns efni það var.