Reykjarvíkurborg hefur gert þá kröfu að borgin njóti framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og höfðað dómsmál gegn ríkinu þar sem borgin krefst samtals 5.418 milljarða úr ríkissjóði. Hluti af kröfu Reykjarvíkurborgar varðar íslenskukennslu barna af erlendum uppruna sem er greitt af jöfnunarframlagi til grunnskóla. Greiddar eru um 150 þúsund krónur með hverju barni til sveitarfélaga um land allt, utan Reykjavíkur.
Í umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs segir meðal annars:
„Hér er um að samfélagslega breytingu að ræða sem öll sveitarfélög þurfa að takast á við í rekstri sínum. Fyrsta áætlun ríkisins um framlög nemenda með íslensku sem annað tungumál 2023 sýnir þetta með skýrum hætti. Það að börn af erlendum uppruna í Reykjavík njóti ekki sömu jöfnunarframlaga og annarsstaðar á landinu er óásættanlegt og þess krafist að þetta verði leiðrétt,“ segir í umsögninni.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra hefur lýst því yfir að hann telji slíkar kröfur vera óskiljanlega aðför borgarinnar. Að sögn Sigurðar er slíkri kröfu ekki beint gegn ríkissjóði heldur gegn sveitarfélögunum í landinu.
990 milljónum lofað en 120 greiddar
Þá er sjónum beint að bágri fjárhagslegri stöðu Strætó. Þar hefur vont versnað og í umsögninni segir að stjórn byggðasamlagsins standi frammi fyrir afar erfiðri stöðu sjárhagslega sem ekki hafi verið fyrirséð fyrir rúmlega tveimur árum síðan. Fjárhagslega hafi staðan versnað en að beiðni stjórnvalda var lögð áhersla á að halda úti óskertri þjónustu í almenningssamgöngum á erfiðum tímum heimsfaraldurs.
„Í ljósi þess bundu sveitarfélögin og stjórn Strætó vonir við að ríkið kæmi að rekstrinum með aukaframlag að fjárhæð allt að 990 m.kr. Niðurstaðan var hins vegar aðeins 120 m.kr. framlag eða aðeins brot af því tapi sem hefur 5 verið að raungerast hjá félaginu vegna samdráttar í farþegatekjum sem námu um 1,7 milljarði króna á tveggja ára tímabili.“
Félagið hafi sökum þess verið að ganga á eigið fé og uppsafnað handbært fé sem fyrirhugað var að nýta til fjárfestinga í vögnum. Þá er bent á að árið 2022 hafi jafnframt verið félaginu erfitt vegna mikilla hækkana á olíu og kostnaðarhækkana vegna verðbólgu.
Í umsögninni eru rakin þau verkefni sem eru og hafa verið til umræðu og borgin segja van- eða ófjármögnuð. Í 18 liðum er nánar útlistað fjárhaglegt mat hvers verkefnis sem samtals nema tæpum 20 milljörðum króna.