Þetta kemur fram í pistli sem Chris Mason, fréttamaður BBC sem sérhæfir sig í umfjöllum um bresk stjórnmál, skrifar inn á fréttavef BBC í dag.
„Ef þú finnur fyrir vott af skelfingu í loftinu, þá ert þú ekki sá eini,“ skrifar Mason. Þar gerir hann tilkynningu Jeremy Hunt, nýs fjármálaráðherra Bretlands að umtalsefni sínu.
Hætt við skattalækkun og þak á orkuverði stytt
Hunt kynnti í dag nýjar aðgerðir í efnahagsmálum þar sem hann dró til baka nær allt sem eftir stóð af upprunalegu fjármálafrumvarpi forsætisráðherrans. Áður hafði verið tilkynnt að hætt yrði við afnám hæsta skattþrepsins, eftir mikla gagnrýni, gagnrýni sem meðal annars varð til þess að Hunt tók við af Kwasi Kwarteng, fjármálaráðherra á dögunum.
Hætt verður við boðaða skattalækkun á tekjuskatt úr 20 prósent í nítján, þak á orkuverði mun aðeins vera í gildi til sex mánaða en ekki í tvö ár eins og upprunaleg ætlun Truss og ráðherra hennar var.
„Við munum snúa við nærri öllum skattaákvörðunum“, sagði Hunt í morgun og átti þær við þær aðgerðir sem Truss og Kwarteng, höfðu kynnt.

Faisal Islam, efnahagsskýrandi, BBC, segir að tilkynning Hunt í morgun hafi mögulega falið í sér mestu u-beygju í hagsögu Bretlands.
Í grein sinni á BBC skrifar Mason að tilkynning Hunt þýði að Truss, sá forsætisráðherra, sem lofað hafi að lækka skatta meira en hennar helsti keppinautur um leiðtogahlutverk Íhaldsflokksins, þurfi nú að sætta sig við að geta ekki staðið við loforðið.
Spurningar hafa vaknað hvort að Truss sé stætt áfram sem forsætisráðherra Bretlands og boða þurfi til kosninga, átján mánuðum á undan áætlunum. Nokkrir þingmenn Íhaldsflokksins hafa þegar sagt að það sé erfitt fyrir Truss að halda áfram.
Truss mun mæta í fyrirspurnartíma á breska þinginu á eftir og er fastlega gert ráð fyrir að hún muni mæta mikilli gagnrýni af hálfu stjórnarandstæðinga.