Tillagan er runnin undan rifjum Sjálfstæðisflokksins en Björn Gíslason, borgarfulltrúi, segir í yfirlýsingu að mikill kostnaður fylgi því að koma upp rafíþróttadeildum og styrkurinn sé því mikilvægur. Rafíþróttir njóti vaxandi vinsælda og biðlistar hafi myndast vegna mikillar aðsóknar.
„Það er draumur minn að rafíþróttir séu innleiddar í starf allra íþróttafélaga í Reykjavík, ekki síst með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir félagslega einangrun og auka félagsfærni barna og unglinga,“ segir Björn í áðurnefndri yfirlýsingu.
Þar segir einnig að rafíþróttir séu eins og hefðbundnar íþróttir í þeim skilningi að ungmenni fara út úr húsi, hitta aðra og mynda félagsleg tengsl. Þátttaka í skipulögðu hópstarfi hafi jákvæðar afleiðingar almennt og þar læri ungmenni markmiðasetningu, sjálfsaga, ábyrgð, tilfinningastjórnun og fleira.
Það að tillögunni hafi verið vísað til fjárhagsáætlanagerðar felur ekki í sér að styrkirnir hafi verið samþykktir, eins og stóð upprunalega í fréttinni, sem hefur verið uppfærð.