Samorka boðaði til opins fundar um stöðu hitaveitna og jarðhitaauðlindarinnar í landinu í Hörpu í morgun. Farið var yfir stöðuna hjá stærstu veitufyrirtækjunum og spár um framtíðar þörf á heitu vatni.
Lovísa Árnadóttir upplýsingafulltrúi Samorku segir stöðuna þunga hjá hitaveitunum í landinu.
„Það er vegna þess að heitavatnsnotkun hefur aukist umfram fólksfjölgun. Þannig að þær eiga í fullu fangi með að anna núverandi eftirspurn og svo þarf auðvitað að hugsa fyrir framtíðinni,“ segir Lovísa.
Á höfuðborgarsvæðinu væri til að mynda reiknað með rúmlega þriggja prósenta aukningu í eftirspurn á ári.

„Ef við horfum til lengri tíma og til ársins 2060 þá er það tvöföldun á öllu heitavatnskerfinu. Og ef við horfum á hversu mikil orka þetta er þá er samanlagt afl hitaveita Veitna sem sér Reykjavík fyrir heitu vatni á við tvöfalda Kárahnjúkavirkjun. Þannig að þetta er rosalega mikil orka og stórmál að tvöfalda þetta,“ segir Lovísa.
Um 60% allrar orku sem notuð væri hér á landi væri heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu. Það væru alls 43 teravattsstundir eða tvöfalt meiri orka en frá allri raforkuframleiðslu landsins.
„Núverandi vinnslusvæði eru komin í hámarks afkastagetu. Þannig að við þurfum að leita leiða til að nýta þau betur. Til dæmis með því að hvetja fólk til að fara betur með heita vatnið,“ segir Lovísa.

Það mætti gera með stuttum sturtum í stað þess að fara í bað og spara gangstéttahitun á sumrin. Hitaveitur um allt land væru að huga að næstu skrefum
„Vandamálið er að jarðhitaleit tekur mjög langan tíma. Það er líka hluti af því vandamáli af hverju það er erfitt að anna þessu núna. Af því að aukningin hefur farið fram úr spám og leit getur tekið áratug. Svo þarf að kynnast jarðhitakerfinu sem gefur okkur eitthvað og sjá hvaða reynsla kemur á það,“ segir Lovísa Árnadóttir.