H0Z1D3R með frábæra innkomu í lið LAVA

Snorri Rafn Hallsson skrifar
hoz1d3r

Lið Þórs hóf leikinn í vörn eftir tvöfalda fellu frá Dell1 í hnífalotunni en LAVA fór vel af stað í sókninni. Liðið vann skammbyssulotuna gallalaust þar sem Goa7er felldi fjóra leikmenn og næstu tvær lotur féllu einnig með LAVA. Þór klóraði í bakkann og minnkaði muninn í 3–2 áður en LAVA fór almennilega á flug.

Leikmenn LAVA léku á als oddi og röðuðu inn næstu sex lotunum. Stalz felldi fjóra leikmenn í 7. lotu og voru yfirburðir liðsins mjög greinilegir. Þórsarar enduðu blankir og áttu síður en svo auðvelt með að hindra LAVA í leið sinni á sprengjusvæðið. H0Z1D3R komst í gang um miðjan hálfleik og var atkvæðamikill þar sem LAVA þétti hópinn.

Undir lok hálfleiks tengdi Þór þó fjórar lotur í röð og lauk Rean rununni með fjórfaldri fellu eftir að Dell1 hægði á hraðri ferð LAVA.

Staðan í hálfleik: LAVA 9 – 6 Þór

Aftur hóf LAVA hálfleikinn af krafti og vann fyrstu þrjár loturnar en í þetta skiptið voru Þórsarar fljótari að svara og unnu átta af næstu níu lotum til að ekki bara minnka muninn heldur komast yfir í fyrsta sinn í leiknum 14–13. Rean var sérlega atkvæðamikill en Minidegreez sem hafði lítið sést til fram að þessu fékk vappann loks til að virka fyrir sig. Gátu Þórsarar því verið rólegir og beðið eftir hreyfingum frá LAVA til að bregðast við.

Undir lok venjulegs leiktíma skiptust liðin á lotum í æsispennandi endaspretti þar sem H0Z1D3R tryggði LAVA framlengingu einn gegn Peterrr sem var við það að koma sprengjunni niður.

Staðan eftir venjulegan leiktíma: LAVA 15 – 15 Þór

Lava tókst svo að knýja fram sigur í framlengingunni og skjóta sér úr fimmta sætinu í það fjórða.

Lokastaða: LAVA 19 – 17 Þór

Næstu leikir liðanna:

  • SAGA – Þór, þriðjudaginn 6/12, kl. 19:30
  • LAVA – Atlantic, fimmtudaginn 8/12, kl. 19:30

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir