Talið er að McGory, þá 28 ára gamall, hafi verið að leita að konu sinni þegar hann fór til heimilis Jacqueline Montgomery, frænku konu sinnar, í norðurhluta Lundúna en hún var fimmtán ára gömul. McGory er sagður hafa ráðist á stúlkuna til að fá hana til að segja sér hvar kona hans væri, samkvæmt frétt Sky News.
Faðir stúlkunnar kom að líki hennar en McGory hafði nauðgað henni, stungið hana og kyrkt.
Hann neitaði sök og dómari felldi málið gegn honum niður árið 1976 vegna skorts á sönnunargögnum. Lífsýni sem tekin voru úr leggöngum Montgomery voru geymd í öll þessi ár og voru þau nýlega greind með nútímatækni. Sú greining staðfesti að McGory hefði nauðgað Montgomery og var hann handtekinn og ákærður aftur.
Hann er nú 74 ára gamall og við slæma heilsu en samkvæmt frétt BBC var honum lýst í dómsal sem drykkfelldum og ofbeldishneigðum fauta. Saksóknarar sögðu hann hafa áður hótað því að nauðga Montgomery.
Sár fundust á McGrory á sínum tíma en hann sagðist hafa orðið fyrir árás fjögurra manna. Þar að auki fannst blaðsíða úr dagbók Montgommery á honum en hann sagðist hafa fengið hana frá sömu mönnum.
Hér að neðan má sjá myndband frá breskum saksóknurum þar sem saksóknari fer yfir málið.
Lög um að ekki væri hægt að rétta tvisvar sinnum yfir fólki fyrir sama meinta brotið voru felld úr gildi í Bretlandi árið 2003. Lögunum var breytt á þann veg að líti mikilvæg ný sönnunargögn dagsins ljós sé hægt að ákæra fólk aftur og rétt yfir þeim.
Þetta tiltekna mál er það elsta sem tekið hefur verið fyrir aftur eftir að lögunum var breytt.