Santos tekur sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í dag í skugga ásakana um að hann hafi logið um nær allt á ferilskrá sinni í kosningabaráttunni. Hann laug því að hann hefði unnið fyrir stór fjármálafyrirtæki á Wall Street og útskrifast úr fínum háskóla og sagðist vera gyðingur en átti í raun og veru við að hann væri „gyðingslegur“. Þá sagðist hann ranglega vera afkomandi eftirlifenda helfararinnar og að móðir hans hefði látið lífið vegna hryðjuverkaárásanna 11. september 2001.
Alríkis- og umdæmissaksóknarar í Bandaríkjunum kanna nú fjármál og falskar yfirlýsingar Santos. Þingmannsefnið hefur ekki getað svarað hvaðan 700.000 dollarar sem hann lánaði framboði sínu komu í ljósi þess að hann var nýlega borinn út og skuldaði háar fjárhæðir í leigu. Hann hefur sagst hafa auðgast hratt á ráðgjafarfyrirtæki sem hafi engu að síður verið afskráð vegna mistaka endurskoðanda.
Stal ávísanahefti af sjúklingi móður sinnar
Nú segjast saksóknarar í Ríó de Janeiro í Brasilíu ætla að halda áfram rannsókn á meintum fjársvikum Santos þar í landi árið 2008 fyrst að þeir vita nú hvar hann er að finna. Þeir ætla að fara formlega fram á það við bandaríska dómsmálaráðuneytið að það tilkynni Santos um ákæruna.
Málið snýst um ávísanahefti sem Santos stal frá skjólstæðingi móður sinnar sem vann við hjúkrun þegar hann var sjálfur um tvítugt. Hann var staðinn að því að svíkja varning út úr fataverslun með heftinu og fölsku nafni í brasilísku borginni Niterói. Santos er sagður hafa játað brot sitt við verslunareigandann árið 2009. Þau móðir hans hafi sagt lögreglunni að hann hefði stolið ávísanaheftinu og notað það til þess að svíkja út varning ári síðar.
New York Times segir að brasilískur dómstóll hafi samþykkt ákæru á hendur Santos í september árið 2011 og skipað honum að svara til saka. Þá hafi hann hins vegar verið farinn úr landi og kominn aftur til Bandaríkjanna.