Frá upphafi árs hefur loftmengun í borginni sprengt alla skala. Styrkur köfnunardíoxíðs, sem stafar frá útblæstri bíla, hefur fjörutíu sinnum farið yfir klukkustundarheilsuverndarmörk frá ársbyrjun. Samkvæmt reglugerð umhverfisráðuneytisins má slíkt aðeins gerast átján sinnum á heilu ári.
„Í raun kannski gerist ekkert stórt strax en ef land eða sveitarfélag fer yfir þessi mörk þarf að gera áætlun um hvernig við ætlum að minnka þetta,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.
„Umferðin hérna er að valda þessari mengun fyrst og fremst og dísilbílarnir spila þar mjög stór hlutverk. Meirihlutinn af þessu kemur frá dísilbílum.“

Í dag mældist mengunin mest við Grensásveg en þar mælist mengunin iðulega mest, í það minnsta á höfuðborgarsvæðinu. Sama var uppi á teningnum í dag en er það bara vegna umferðarþungans við Grensásveg sem mengunin mælist svona mikil?
„Já, þessi mælistöð hérna við Grensásveg er viljandi sett niður hér þar sem er mikil umferð og þar af leiðandi mikil mengun, til að fá upplýsingar um mikið mengaðan stað í borginni,“ segir Þorsteinn.
Mælar á öðrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu eins og við Vesturbæjarlaug, Úlfarsárdal, Laugarnes og Dalsmára, mæli yfirleitt ekki svo mikla mengun.

„Það munar um hverja tíu metra sem þú ferð frá götu og þegar þú ert kominn í svona 200 metra fjarlægð eru áhrifin frá þeirri götu eiginlega alveg horfin og bara orðin einhver bakgrunnsmengun,“ segir Þorsteinn.
Mikið frost og stilla á að vera næstu daga og má því búast áfram við mikilli mengun.
„Þegar vindurinn er undir 2 m/s nær mengunin að safnast upp. Um leið og þú ert kominn upp í 3-4 m/s fer vindurinn að sjá um að hreinsa þetta burtu. Og það er það sem reddar okkur yfirleitt: Vindurinn, rokið.“