Þetta kemur fram á Facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands. Þar segir einnig að landrisið hafi verið merkilega stöðugt en lítil skjálftavirkni hafi greinst samhliða því.
Þó hafi mikil skjálftahrina í Herðubreið í lok síðasta árs mögulega tengst landrisinu og spennubreytingum vegna þess.
Kortið í færslunni hér að neðan sýnir dreifingu skjálfta í Dyngjufjöllum síðasta mánuðinn.
Þann 9. september 2021 lýstu Almannavarnir yfir óvissustigi vegna landriss í Öskju og er það enn í gildi. Þá mældist landrisið rúmir sjö sentímetrar á nokkrum vikum og þótti það mikið.
Sjá einnig: Fólk spennt fyrir Öskjugosi sem lætur bíða eftir sér
Líklegasta skýringin var talin sú að kvika væri að safnast fyrir á tveggja til þriggja kílómetra dýpi. Sérfræðingar sögðu þá ólíklegt að von væri á eldgosi á næstu vikum eða mánuðum en að landrisið gæti verið upphafið að langri atburðarás sem endi með gosi. Líklegra væri þó að kvikan myndi aldrei ná á yfirborðið.