Piqué skildi við eiginkonu sína, kólumbísku söngkonuna Shakiru, á síðasta ári. Þau kynntust þegar Shakira gerði lagið Waka Waka fyrir HM 2010 þar sem Spánverjar stóðu uppi sem sigurvegarar. Shakira og Piqué voru saman í tólf ár og eiga tvö börn saman.
Leiðir skildu hins vegar í fyrra vegna framhjáhalds Piqués, að því er talið er. Shakira var ekki sátt og gaf út lag með tónlistarframleiðandanum Bizarrap þar sem hún dregur Piqué sundur og saman í háði.
„Þú skiptir Ferrari út fyrir Twingo. Þú skiptir Rolex-úri fyrir Casio-úr,“ söng Shakira meðal annars í laginu. Ljóst er að Casio-úrið er Clara sem Piqué hélt við meðan hann var enn giftur Shakiru.
Nú hefur Piqué opinberað samband sitt og Clöru en hann birti mynd af þeim saman á Instagram.
Piqué lagði skóna á hilluna í nóvember á síðasta ári. Hann lék með Barcelona í fimmtán tímabil og vann allt sem hægt var að vinna með félaginu, meðal annars spænska meistaratitilinn átta sinnum og Meistaradeild Evrópu í þrígang. Þá vann hann Meistaradeildina og ensku úrvalsdeildina með Manchester United tímabilið 2007-08.