Alexander Þór Friðriksson er í leikskólanum Gimli í Reykjanesbæ. Hann er kátur og hress strákur, alltaf brosandi og ekkert feimin. Alltaf þegar hann heimsækir ömmu sína og afa á Freyjuvellina þá byrjar hann alltaf á því að fara inn í bílskúr til að athuga hvort það sé ekki til eitthvað súrmeti í fötum, eitthvað sem afi hans kenndi honum að borða þegar hann var innan við eins árs .
Alexander Þór borðar allan súrmat með bestu lyst en súrt slátur þykir honum þó allra best.
Og stundum tekur Alexander Þór upp á því að súpa mysuna beint upp úr fötunum inn í bílskúr. Og hann borðar líka hákarl eins og ekkert sé.
En hvað segja foreldrarnir um Alexander Þór og súrmatinn, sem hann er svona sjúkur í?
„Já, já, það bara sést, hann er brjálaður í þennan mat“, segir Friðrik Daði Bjarnason, pabbi Alexanders Þórs.
„Hann fer bara sjálfur út í skúr og reynir að opna föturnar og biður afa svo að koma og skera góðgætið niður í bita, hann mjög spenntur fyrir þessu,“ segir Eygló Alexandersdóttir, mamma Alexanders Þórs og brosir út í annað.
En þetta hlýtur að vera mjög óvenjulegt?
„Já, fólk segir okkur það allavega. Maður er bara alin upp við þetta allt sitt líf,“ segir Friðrik Daði og Eygló bætir við.
„Ekki get ég borðað þetta, ég var bara dregin inn í þetta þegar ég kom inn í fjölskylduna, þannig að þetta er alveg sérstakt og Alexander Þór tekur þennan mat fram yfir allt annað“.
Og Alexander Þór er meira að segja búin að ákveða hvað hann ætlar að verða þegar hann er orðinn stór.
„Mig langar að vera flugvirki eins og pabbi,“ segir hann kátur og hress.
